Bæjarráð Fjallabyggðar

521. fundur 03. október 2017 kl. 12:00 - 13:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður, S lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir varaformaður, D lista
  • Ríkharður Hólm Sigurðsson aðalmaður, S lista
  • Jón Valgeir Baldursson áheyrnarfulltrúi, B lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Starf forstöðumanns Bóka- og héraðsskjalasafns

Málsnúmer 1708035Vakta málsnúmer

Steinunn María Sveinsdóttir vék undir þessum lið.

Undir þessum lið sat Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda-, og menningarmála.


Tekið fyrir bréf Hrannar Hafþórsdóttur forstöðumanns Bókasafns Fjallabyggðar, dags. 22.9.2017, þar sem hún óskar eftir því að draga uppsögn sína til baka og taka aftur til starfa að loknu sumarleyfi. Einnig lagt fram minnisblað deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála vegna málsins.

Bæjarráð samþykkir beiðni Hrannar og felur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála afgreiðslu málsins og nánari útfærsla verði lögð fyrir bæjarráð í næstu viku.

2.Samningur um skóla- og frístundaakstur

Málsnúmer 1705057Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sat Ríkey Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri fræðslu-, frístunda-, og menningarmála.

Lagður fram undirritaður samningur við Hópferðabifreiðar Akureyrar um skóla- og frístundaakstur árin 2017-2020. Tekin var ákvörðun um að setja sæti með þriggja punkta beltum í hópferðabílinn, sem er umfram það sem lög og reglur kveða á um. Því tekur Fjallabyggð þátt í kostnaði með HBA við að skipta um sæti í bílnum sem tryggir öllum farþegum í rútunni aukið öryggi.

Bæjarráð óskar eftir því að á næsta fundi bæjarráðs verði lögð fram upphæð á auknum kostnaði vegna skólaaksturs, sem vísað verður til viðauka við fjárhagsáætlun.

3.Fyrirspurn vegna sauðfjársmölunar og fjallskila í umdæmi Fjallabyggðar

Málsnúmer 1709065Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað deildarstjóra tæknideildar vegna erindis Guðbrands J. Ólafssonar um fyrirkomulag sauðfjársmölunar í Fjallabyggð. Erindið var tekið fyrir á síðasta fundi bæjarráðs. Í minnisblaði deildarstjóra kemur fram að fjallskilastjórn hafi ekki skilað samantekt um fjallskil 2017 en búist er við að hún sé væntanleg innan tíðar.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir því að deildarstjóri tæknideildar gangi eftir því að samantektinni verði skilað sem fyrst. Eftir að hún berst mun bæjarráð svara fyrirspurn Guðbrands.

4.Hinsegin málefni í Fjallabyggð.

Málsnúmer 1709056Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sat Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda-, og menningarmála.

Tekið fyrir bréf frá Birgittu Þorsteinsdóttur, Hólmfríði Ósk Norðfjörð og Sunnu Björgu Valsdóttur þar sem óskað er eftir því að Fjallabyggð leggi meiri áherslu á hinsegin málefni í sveitarfélaginu. Lýsa þær sig reiðubúnar til þess að koma að þeirri vinnu og ræða við bæjaryfirvöld.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að ræða við bréfritara um þeirra hugmyndir.

5.Ný persónuverndarlöggjöf

Málsnúmer 1709095Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar upplýsingar vegna gerðar nýrrar persónuverndarlöggjafar. Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að gerð minnisblaðs sem sent verður til allra sveitarfélaga til að kynna helstu breytingar og auðvelda undirbúning á innleiðingu nýrrar löggjafar.

Einnig lagt fram til kynningar erindi frá Þekkingu þar sem kynnt er aðstoð við innleiðingu löggjafarinnar.

6.Styrkumsókn - Félag eldri borgara,Ólafsfirði

Málsnúmer 1709082Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Félagi eldri borgara í Ólafsfirði, dags. 27. september 2017, þar sem óskað er eftir styrk frá sveitarfélaginu vegna kostnaðar við viðgerð á aðaldyrum húsnæðis félagsins.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018 og felur formanni bæjarráðs að ræða við formann félags eldri borgara í Ólafsfirði.

7.Ófærð 2, Siglufirði

Málsnúmer 1709088Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Birnu Hjaltalín og Emil Morávek, dags. 26. september 2017, þar sem óskað er eftir afnotaleyfi vegna sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærðar sem tekin verður upp á Siglufirði og hefjast tökur 14. október n.k.

Vinna við upptökur krefst m.a. þess að götum og bílastæðum verði lokað tímabundið og leikmynd verði komið upp þar sem hún þjónar tilgangi sögunnar. Þá er óskað eftir sérstöku leyfi til þess að loka bílastæðum við ráðhústorg tímabundið, til þess að setja dautt fé á ráðhústorgið og til þess að fjarlægja málningu af stæði fyrir hreyfihamlaða við Ráðhúsið en það yrði málað aftur að upptökum loknum. Íbúar verða upplýstir um gang mála í formi dreifibréfa og/eða á samfélagsmiðlum.

Bæjarráð samþykkir að veita leyfi fyrir sitt leyti en leggur áherslu á að aðstandendur þáttaraðarinnar eigi í góðu samstarfi við lögreglu, Vegagerðina, Matvælastofnun, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra og aðra aðila sem við á hverju sinni. Þá leggur bæjarráð áherslu á að upplýsingum verði komið til íbúa þegar við á og felur deildarstjóra tæknideildar og markaðs- og menningarfulltrúa Fjallabyggðar að vera tengiliðir sveitarfélagsins.

8.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2017

Málsnúmer 1701004Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 44. fundar fræðslu- og frístundanefndar sem var haldinn 2.október 2017.

Fundi slitið - kl. 13:00.