Ársreikningur Fjallabyggðar 2023

Málsnúmer 2404047

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 828. fundur - 23.04.2024

Undir þessum lið kom á fund bæjarráðs Þorsteinn G. Þorsteinsson, löggiltur endurskoðandi sveitarfélagsins frá KPMG.

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi ársreikningur Fjallabyggðar fyrir árið 2023 ásamt sundurliðun.

Þorsteinn fór yfir helstu niðurstöður úr ársreikningi.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Drög að ársreikningi tekin til umræðu. Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við reikninginn og vísar honum til fyrri umræðu bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 242. fundur - 30.04.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi ársreikningur Fjallabyggðar fyrir árið 2023 ásamt sundurliðun.
Undir þessum lið kom á fund bæjarstjórnar Þorsteinn G. Þorsteinsson, löggiltur endurskoðandi sveitarfélagsins frá KPMG og fór hann yfir helstu niðurstöður úr ársreikningi.

Sigríður Ingvarsdóttir tók til máls.
Ábyrgur rekstur og litlar skuldir hjá Fjallabyggð
Samkvæmt framlögðum ársreikningi er rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B- hluta jákvæð um kr. 89.851.000 sem er talsvert betra en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Vaxtaberandi skuldir sveitarfélagsins við lánastofnanir eru kr. 113.000.000 sem er með því lægsta sem gerist á landinu. Það þýðir um það bil 57.000 krónur á hvern íbúa. Lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins hækkuðu umtalsvert milli ára eða um 315 milljónir sem gerir það að verkum að rekstrarafgangur ársins er ekki enn meiri.
Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um kr. 81.716.000. Fjárfesting ársins nam kr. 327.000.000. Handbært fé frá rekstri samstæðu A- og B- hluta var kr. 443.823.000 og veltufé frá rekstri fyrir samstæðuna var kr. 593.825.000 og því er fjárfestinga- og framkvæmdageta Fjallabyggðar með ágætum. Að undanförnu hefur stundum reynst erfitt að fá tilboð í þau verk sem boðin eru út. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam kr. 4.628.400.000 samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta um kr. 3.863.100.000.
Rekstur sveitarfélagsins var nokkuð stöðugur á árinu, líkt og undan farin ár. Rekstur málaflokka var almennt innan fjárhagsáætlunar þrátt fyrir verðbólgu, nýja kjarasamninga og aðra óvissuþætti. Tekjur sveitarfélagsins voru nokkuð hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en það má helst rekja til aukinna framlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Bæjarstjórn samykktir framlagðan ársreikning 2023 með 7 atkvæðum og vísar honum til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 15. maí nk.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 243. fundur - 15.05.2024

Ársreikningur Fjallabyggðar fyrir árið 2023 lagður fram til seinni umræðu. Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta annars vegar og hins vegar A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er Aðalsjóður auk Eignasjóðs og Þjónustustöðvar. Í B-hluta eru Hafnarsjóður, Hornbrekka, Íbúðasjóður og Veitustofnun.
Samþykkt
Framlagður ársreikningur Fjallabyggðar 2023 borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með 7 atkvæðum og undirrita kjörnir fulltrúar ársreikninginn því til staðfestingar, ásamt ábyrgðar- og skuldbindingaryfirliti.