Botnaleið

Vegalengd: 21-21 km
Leið: Garður í Ólafsfirði - Skeggjabrekkudalur - Möðruvallahásl - sunnan Ámárhyrnu - Hólaskarð - Siglufjörður
Metsta hæð: 630 m
Göngutími: 8-10 klst.

Þegar farið er til Héðinsfjarðar, Fljóta eða Siglufjarðar frá Ólafsfirði er mjög skemmtilegt að fara um Skeggjabrekkudal og nefnist þá leiðin Botnaleið. Ef farið er að sumri til er lagt upp frá brúnni yfir Garðsá, en þaðan liggur vegur fram að hitaveituholum á Skeggjabrekkudal og er hann fær öllum bílum. Ef farið er á skíðum er gjarnan lagt upp frá skála golfmanna í Skeggjabrekku. Dalurinn er mjög greiðfær og gegnið er á grónum grundum vestan árinnar. Á hægri hönd er Ósbrekkufjall með Skeggjabrekkuhyrnu er nær upp í 901 m., en á vinstri hönd Garðshyrna, 425 m., og Auðnahyrna, 805 m.

Skarðið sem myndast í fjallseggina og farið er um er nefnt Sandskarð af Ólafsfirðinum en Fljótamenn nota nafnið um skarðið sem er á milli Héðinsfjarðar og Fljóta. Á uppdrætti heitir fyrrnefnda skarðið Sandskarð og nota ég það hér. Mjög stutt er á milli þessara tveggja skarða og gæti það orsakað nafnabrenglið.

Þegar komið er fram í Hóla taka við grónar grundir en þær geta oft verið blautar þannig að betra er að halda sig nær fjallinu að vestan.

Leiðin fram dalinn fer nú smám saman hækkandi og síðasti hlutinn er töluvert brattur en mjög vel göngufær. Gengið er á stórum melöldum beint fram úr dalnum og er upp á þær er komið er snúið til norðvesturs í átt að skarðinu og nefnast þar Hálsar. Auðvelt er að fara með hesta enda nota hestamenn dalinn mikið til útreiða og til heimsókna í Fljót og Siglufjörð. Gangan upp í skarðið tekur tvo til þrjá tíma.

Þegar upp er komið er mjög víðsýnt út Ólafsfjörð í átt að Gjögrum og niður Héðinsfjörð. Í skarðinu eru staurar og er vír strengdur á milli þeirra og er verið að kanna ísingu því komið hefur til greina að leggja raflínu til Siglufjarðar.

Leiðin er nefnd Botnaleið vegna þess að ef fara á til Siglufjarðar er farið Héðinsfjarðarbotn. En stutt er líka yfir til Fljótamanna. Ef gengið er með fjallinu á vinstri hönd eftir að komið er í gegnum skarðið er fljótlega komið að skarði sem liggur til Fljóta og þeir nefna Sandskarð eins og áður er getið og er þá komið niður í Ólafsfjarðardal. Eins og áður sagði er umferð um dalinn mjög mikil á sumrum af fólki á leið til og frá Ólafsfirði og á vetrum af skíða- og vélsleðafólki, en aðgát skal höfð er farið er um dalinn að vetri því eins og flestir dalir Ólafsfjarðar eru snjóflóð tíð. Ganga til Fljóta tekur um fjóra til fimm tíma, til Siglufjarðar um fimm til sex tíma og niður að sjó í Héðinsfirði um fimm til sex tíma.